Klúbburinn 9799
- Rótarýumdæmið á Íslandi
- Stofnnúmer
Saga Rótarýklúbbs Akureyrar
Fyrsta fundargerð Rótarýklúbbs Akureyrar er frá árinu 1938, svohljóðandi:
"Ár 1938, mánudaginn 21. mars kl. 3 e.h. voru undirritaðir samankomnir á Skjaldborg á Akureyri til þess að ræða um stofnun rótarýfélagskapar á Akureyri.
Þessir voru mættir:
Framkvæmdastjóri Vilhjámur Þór, Skólameistari Sigurður Guðmundsson, Spítalalæknir Guðmundur Karl Pétursson, Póstmeistari Óli P. Kristjánsson, Skólastjóri Snorri Sigfússon, Rafvirki Indriði Helgason, Sóknarprestur Friðrik J. Rafnar.
Samþykkt var að stofna félagsskapinn til reynslu, en tilkynna hann ekki að svo stöddu, fyrr en séð væri, hvernig líkaði og gengi. Kosnir voru þessir menn til að vera í fyrstu stjórninni: Sigurður Guðmundsson með 5 atkv, Friðrik J. Rafnar með 5 atkv, Óli P. Kristjánsson með 4 atkv. Stjórnin skiptir með sér verkum.
Ákveðinn var föstudagur sem samkomudagur kl. 3 e.h. Ákveðið var að koma saman aftur föstudaginn 1. apríl. Fleira ekki tekið fyrir, fundinum slitið."
Fundargerð þessi er með hendi Friðriks J. Rafnars vígslubiskups og er undirrituð af honum ásamt Vilhjálmi Þór. Eitthvað mun þessi hópur hafa komið saman á næstu mánuðum og unnið að stofnun rótarýklúbbs á Akureyri, en 4. september um haustið var haldinn formlegur stofnfundur Rótarýklúbbs Akureyrar. Voru þar staddir hinir sömu menn og nefndir voru í upphafi, að undanskildum Sigurði Guðmundssyni skólameistara, en einnig voru á fundinum Ólafur Thorarensen bankastjóri og Steinn Steinsen bæjarstjóri. Ennfremur voru komnir norður til leiðbeiningar frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur Steingrímur Jónsson rafveitustjóri, Ludvig Kaaber bankastjóri, Carl Olsen stórkaupmaður og Ragnar Blöndal kaupmaður.
Á undirbúningsfundi sem haldinn hafði verið tveim dögum fyrr af flestum sömu mönnum og hér hafa verið nefndir flutti Steingrímur Jónsson fyrirlestur og skýrði frá starfsháttum og tilgangi rótarýklúbbanna.
Samþykkt var að stofna Rótarýklúbb Akureyrar, og gerðust allir viðstaddir heimamenn stofnfélagar, ennfremur var ákveðið að Sigurður Guðmundsson skólameistari skyldi vera stofnfélagi samkvæmt eigin ósk en hann átti þess ekki kost að sækja fundinn.
Kosin var stjórn klúbbsins og var hún þannig skipuð:
Friðrik J. Rafnar vígslubiskup forseti, Guðmundur Karl Pétursson yfirlæknir varaforseti, Ólafur Thorarnesen bankastjóri ritari, Sigurður Guðmundsson skólameistari gjaldkeri, Óli P. Kristjánsson póstmeistari stallari. Fundardagur var ákveðinn föstudagur og hélst sú skipan til ársins 2014.
Rótarýklúbbur Akureyrar var fámennur félagsskapur fyrstu árin, stofnendur voru níu og og meðlimum fjölgaði hægt. Hefur það trúlega verið ástæðan fyrir því að klúbburinn sótti ekki strax um eða hefur ekki verið fær um að óska eftir réttindum sem fullgildur klúbbur innan Rotary International.
Árið 1941 voru félagar orðnir sextán og á fundi 4. júlí það ár skýrði þáverandi forseti, Guðmundur Karl Pétursson, frá því, að klúbburinn myndi geta fengið staðfestingu sem fullgildur klúbbur í Rotary International, og var samþykkt að óska eftir þeirri staðfestingu. Stofnbréf Rótarýklúbbs Akureyrar sem fullgilds klúbbs innan Rotary International var gefið út 20. desember 1941, en það liðu tæpir sex mánuðir þar til það barst í hendur klúbbsins, en þá geisaði heimsstyrjöld og samgöngur milli heimshluta voru með öðrum hætti en nú í dag. En 13. júní 1942 afhenti Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri í Reykjavík stofnbréfið á fundi í Rótarýklúbbi Akureyrar, samkvæmt fyrirmælum frá Rotary International. Segir í fundargerð að athöfn þessi hafi farið virðulega fram og forseti, Guðmundur Karl Pétursson, hafi við það tækifæri þakkað Steingrími Jónssyni sérstaklega fyrir allt hans starf og fyrirhöfn í þágu klúbbsins og kvað svo að orði að klúbburinn ætti engum meir að þakka tilveru sína en honum.
Allir þeir, sem að upphafi klúbbsins stóðu eru nú horfnir yfir móðuna miklu. Þeirra er minnst með virðingu og þökk. Lengstan feril í Rótarýklúbbi Akureyrar fyrr og síðar mun hafa átt Sverrir Ragnars kaupmaður (1946-2001). Hann sótti öllum öðrum betur fundi, mætti snemma og tók á móti félögum og gestum með glöðu geði. Þegar þetta er ritað, 2017, hefur Hermann Sigtryggson raunar verið litlu skemur í klúbbnum en Sverrir var, eða í 53 ár.
Fundardagur Rótarýklúbbs Akureyrar var sem fyrr segir löngum föstudagur. Fyrst í stað voru fundir síðdegis en lengst af voru þeir á hádegi, uns þeir voru snemma árs 2014 fluttir yfir á miðvikudagskvöld.
Upphaflega virðast fundir klúbbsins hafa verið rabbfundir, menn komu saman síðdegis á föstudögum og spjölluðu saman yfir kaffibolla. Það er ekki fyrr en á 76. fundi frá upphafi - 1. mars 1940 - að þess er getið, að flutt hafi verið fræðsluerindi, en þá talaði Snorri Sigfússon um skólamál og fyrirkomulag skóla. Eftir það sýnist svo, að á allflestum fundum hafi verið flutt eitthvert fræðsluefni. Nú er aðalregla sú að erindi séu flutt á þremur fundum í hverjum mánuði.
Fundarstaður fyrstu árin var í skrifstofuhúsi KEA, en frá því um miðjan fimmta áratuginn á Hótel KEA, hinum megin götunnar. Hin síðari ár hafa fundir á sumrin verið haldnir á öðrum stöðum innan bæjarins, í Golfskálanum eða á Amtsbókasafninu.
Klúbburinn var lengi vel eingöngu skipaður körlum, en 29.01.1999 var byrjað að taka konur inn í hann, og hefur þeim farið verulega fjölgandi hin síðari ár. Heildarfjöldi félaga hefur sveiflast nokkuð til, en árið 1984 voru þeir rúmlega 50 talsins. Nú, 2017, eru félagar nær 30.
Klúbburinn hefur lagt talsvert af mörkum til íslenska Rótarýumdæmisins. Hann hefur annast sex umdæmisþing, fyrst árið 1948, þá 1950, 1962, 1974, 1989 og loks 2008.
Fimm umdæmisstjórar hafa komið beint úr klúbbnum: Friðrik J. Rafnar 1950-1951, Sverrir Ragnars 1961-1962, Hjörtur Eiríksson 1973-1974, Jón Arnþórsson 1988-1989 og síðast Pétur Bjarnason 2007-2008. Einnig voru þrír aðrir umdæmisstjórar félagar í klúbbnum um árabil, þeir Kristinn G. Jóhannsson, Gissur Ó. Erlingsson og Lárus Jónsson.
Meginstarf Rótarýklúbbs Akureyrar hefur verið með líkum hætti og hjá öðrum rótarýklúbbum hérlendis, það hefur byggst upp á því að efla kynni milli einstaklinga og starfsstétta, fræðslu og upplýsingastarfsemi. Samskipti við aðra klúbba hafa verið nokkur, einkum á síðari árum. Haldnir hafa verið sameiginlegir fundir með rótarýklúbbum á Norður- og Austurlandi - þó ekki reglulega. Síðast hittu klúbbfélagar og makar félaga í Rótarýklúbbi Húsavíkur á fundi að Þeistareykjum hinn 14. júní 2016 og 12. nóvember sama ár hittust flestir klúbbar á Norður- og Austurlandi í matarveislu á Hótel Seli, Mývatnssveit.
Klúbburinn hefur nokkuð látið að sér kveða við skógrækt og voru snemma gróðursettar trjáplöntur bæði í Kjarnaskógi og einkum að Botni í Hrafnagilshreppi, nú Eyjafjarðarsveit. Botnsreitur er í eigu Akureyrarbæjar og er um 7,5 hektarar að stærð. Ræktun hófst þar 1951. Reiturinn er mjög blandaður en fura er þar talsvert áberandi. Eftir því sem næst verður komist hafa um 50 þúsund plöntur verið gróðursettar í reitnum. Um reitinn hafa verið lagðir stígar, við hann er bílastæði og upp frá því er sérstakt fundarjóður. Klúbburinn hefur lengi haft sérstaka umsjón með Botnsreit. Af þeim sem mest hafa stýrt verki þar á seinni árum skulu sérstaklega nefndir klúbbfélagarnir Hermann Sigtryggsson og Birgir Guðmundsson. Undanfarin ár hefur yfirleitt einn sumarfundur klúbbsins, fjölskyldufundur, verið haldinn undir beru lofti í Botnsreit.
Klúbburinn hefur nokkuð beitt sér fyrir námsmannaskiptum og ýmislegri fyrirgreiðslu við erlenda gesti í tengslum við rótarýklúbba bæði vestan hafs og austan.
Rótarýklúbbur Akureyrar hefur aðstoðað við stofnun þriggja klúbba á Akureyri sem hafa starfað í sama anda og hann og unnið að líkum málum: Inner Wheel klúbbur var stofnaður 20. maí 1975. Stofnendur voru 22 eiginkonur Rótarýmanna. Klúbburinn starfaði um skeið af miklum þrótti, og voru fundir haldnir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Velflestar eiginkonur rótarýmanna voru félagar í Inner Wheel. Fyrsti forseti Inner Wheel var Þorgerður Árnadóttir. Klúbburinn lagðist af um 2010, enda fór þá konum fjölgandi í Rótarýklúbbnum sjálfum.
Klúbburinn Karl II. var stofnaður 3. febrúar 1977 og hafði Árni Árnason kaupmaður mestan veg og vanda af því. Klúbburinn Karl II. er félagsskapur manna á eftirlaunaaldri. Hittast þeir yfir vetrarmánuðina fyrsta þriðjudag hvers mánaðar, síðdegis. Fyrsti forseti Karl II. var Eiríkur Sigurðsson, skólastjóri. Þessir klúbbar störfuðu sjálfstætt, en þó í óformlegum tengslum við Rótarýklúbb Akureyrar. Markmið þeirra allra hefur verið hið sama, að stofna til kynna milli einstaklinga, sem ef til vill hefðu að öðrum kosti ekki þekkt hver til annars og jafnvel alið á fordómum hver í annars garð. Ef eitthvað hefur áunnist í þeim efnum þá hefur ekki verið unnið til einskis.
Rótarýklúbbur Eyjafjarðar var stofnaður 12. febrúar 1991. Hann hélt lengi vel fundi sína á Hótel KEA alla þriðjudaga kl. 18:15. Hann hefur jafnan verið nokkuð fáliðaður. Fyrsti forseti hans var Jónas Franklín læknir.